Prófareglur

1. Próftími er mismunandi, frá 1 klst. til 4 klst. Próf hefst stundvíslega á auglýstum tíma. Nemendur mega EKKI mæta til prófs síðar en 10 mínútum eftir að próftími hefst.

2. Nemendur skulu skrá sig á sérstakan viðverulista, sem kennari flytur um stofuna. SKYLT er að hafa persónuskilríki tiltæk á borðinu og munu kennarar kanna þau eftir þörfum hverju sinni.

3. Skólinn leggur til pappír og prófverkefni, en nemendur ritföng og önnur leyfileg hjálpargögn. Ekkert má lána né fá lánað nema með milligöngu kennara.

4. Töskur, pokar og því um líkt má ekki vera á eða við prófborð.

5. Vanda skal skrift og frágang á prófúrlausnum og þær merktar fullu nafni og kennitölu.

6. Öll notkun farsíma, símboða sem og allra tónlistaspilara er stranglega bönnuð í prófstofum. Einnig er stranglega bannað að nota farsíma sem reiknivélar.

7. Við skrifleg próf má nota þau gögn ein, sem kennari leyfir. Nemandi, sem staðinn er að því að nota óleyfileg gögn eða veita eða þiggja hjálp við próf umfram það sem heimilað er, hefur fyrirgert rétti til frekari þátttöku í viðkomandi námsáfanga.

Sérhver nemandi ber ábyrgð á því að kennari hafi ekki ástæðu til að ætla að hann muni brjóta ofanskráð ákvæði.

Rétt er að benda nemendum á að hreinsa til í pennaveskinu, tölvuvasanum, o.s.frv.