Spurt og svarað

Hér eru birt svör við algengum spurningum sem borist hafa varðandi Sumarskólann í FB.

Hvað er kennsla í áföngum löng?
Kennt er í tveimur klukkutíma lotum með 10 mínútna hléi á milli. Fyrirkomulagið er því þannig að kennt er í klukkutíma, síðan eru 10 mínútna frímínútur og svo kennt í annan klukkutíma.

Hvað er kennt lengi á daginn?
Skóladagurinn skiptist í tvær lotur. Fyrri lotan hefst kl. 17:30 og stendur yfir til kl. 19:40 og síðari lotan hefst kl. 20:00 og stendur yfir til kl. 22:10. Ein lota hefur bæst við í nokkrum áföngum kl. 15:10-17:20.

Hversu oft er áfangi kenndur?
Fimm feininga áfangi er alla jafna kenndur þrisvar í viku. Við getum tekið dæmi um áfanga sem er kenndur AB IJ RS. Samkvæmt stundatöflu er þessi áfangi kenndur á mánudögum (AB), miðvikudögum (IJ) og föstudögum (RS) frá kl. 17:30 til 19:40.

Hvað er ráðlegt að taka marga áfanga í Sumarskólanum í FB?
Það er nær ómögulegt að svara þessari spurningu með góðum hætti þar sem margir þættir spila inn í þetta. Til dæmis hvernig er grunnur nemandans í faginu, hversu vel getur hann sinnt náminu, er nemandinn að vinna mikið eða lítið með náminu o.s.frv. Við höfum dæmi um nemendur sem hafa tekið t.d. 4 áfanga og gengið mjög vel og því miður höfum við einnig dæmi um nemendur sem hefur ekki gengið nógu vel. Ef nemandi ætlar sér að standa sig vel og sinnir náminu af kappi, þá er árangurinn yfirleitt í samræmi við það.

Er ekki erfitt að stunda nám á svona skömmum tíma?
Það þarf alls ekki að vera. Nemendur geta einbeitt sér að einum, tveimur eða fleiri áföngum, en ekki t.d. allt að 10 áföngum eins og sumir gera á veturna. Ef við tökum dæmi um fimm feininga áfanga, þá eru nemendur í þeim áfanga annan hvern dag í 2 klukkutíma í einu. Sumir nemendur segja að svona yfirferð á svona skömmum tíma hafi beinlínis hjálpað þeim í viðkomandi áfanga; þ.e.a.s. námsefnið tekið hratt og vel.

Hvað má maður taka marga áfanga?
Nemendur mega taka eins marga áfanga og þeir vilja. Það hýtur samt sem áður að vera kappsmál nemenda (og skólayfirvalda Sumarskólans í FB) að nemendur standi sig vel. Því er ekki ráðlegt að vera í fleiri áföngum en nemandi ræður við. Nemandi greiðir fyrir námið og verður að meta það sjálfur hvað hann ræður við. Oft er gott að hafa í huga máltækið „að flýta sér hægt.“

Er alveg frjáls mæting í Sumarskólann í FB
Já og nei. Í talsvert mörgum áföngum eru ákveðnar kröfur um að nemendur mæti. Þetta á t.d. við munnleg próf, verklegar tilraunir í raungreinaáföngum, tímaritgerðir, vettvangsferð o.s.frv. Upplýsingar um þetta ætti að koma fram á kennsluáætlun og er það lagt í hendur nemenda að fylgjast með þessu. Að öðru leyti er alla jafna ekki fylgst með mætingu nemenda nema það sé sérstaklega tekið fram í kennsluáætlun.

Hvaðan eru kennararnir sem kenna við Sumarskólann í FB?
Sumarið 2016 kenndu 40 kennarar við skólann. Þar af voru 15 sem kenna í FB. Svo komu 25 kennarar úr 10 mismunandi skólum. Í Sumarskólanum í FB er lögð mikil áhersla á að hafa úrvalskennara og að kennsla sé fyrsta flokks þar sem kennslutíminn er frekar naumur og nemendur greiða töluvert fé fyrir námið.

Vegna vinnu mun ég missa af fyrstu tveimur tímunum í Sumarskólanum í FB. Er það mjög slæmt?
Það fer allt eftir því hvernig þú sinnir náminu. Þetta er dálítil keyrsla í mánuð og vissulega er ekki gott að missa marga tíma úr. Það er hins vegar frjáls mæting í skólann og nemendur mæta eins og þeir geta. Nemendur geta undirbúið sig vegna þessa; verið búnir að kaupa námsbækurnar, mögulega talað við kennarann og/eða sent honum tölvupóst, fengið upplýsingar um námsefnið sem farið var/verður í og reynt að vinna af kappi til þess að bæta sér upp missinn. Þetta fer allt eftir því hvað nemandinn treystir sér til.

Hvernig virkar þetta dreifnám?
Dreifnámið er þannig uppbyggt að nýttir eru allir helstu kostir fjarnáms auk þess sem nemendur hafa aðgang að kennara sínum á ákveðnum tímum. Notaður er vefurinn fb.dreifnam.is (Moodle) til að gera námið aðgengilegt. Kennsla er svo á uppgefnum tímum. Þar verður farið yfir stöðuna í áfanganum, málin rædd og t.d. tekin minni próf. Boðið er upp á marga áfanga í dreifnámi í Sumarskólanum í FB (sjá Dreifnámsáfanga undir krækjunni Nám og kennsla). Þeir áfangar sem boðnir eru þykja henta sérlega vel í dreifnámi.

Þarf maður að vera búinn með undanfara?
Nemendur þurfa ekki nauðsynlega að vera búnir með undanfara ákveðinna greina. Við mælum þó samt sem áður með því þar sem það eykur líkurnar á góðum árangri.

Hvaða nemendur eru í Sumarskólanum í FB?
Sumarið 2017 voru nálægt 1000 nemendur í skólanum. Þetta eru nemendur úr nánast úr hverjum einasta framhaldsskóla landsins. Fyrst og fremst er um að ræða nemendur sem eru að flýta fyrir sér í námi, en eins eru í skólanum nemendur sem vilja vinna upp áfanga sem þeir hafa fallið í. Svo er talsverður og stækkandi hópur sem er að fara í háskólanám hér heima og erlendis og vill og þarf að undirbúa sig betur. Loks eru líka nemendur úr 10. bekk sem hefur ekki gengið sem skyldi á prófum og vilja undirbúa sig betur fyrir framhaldsskólanám.

Frekari upplýsingar um sumarskólann í FB gefur Torfi Magnússon í síma 661 8012 eða með því að senda tölvupóst á sumar@fb.is.